Sveitarfélag í sókn

stefanvagn.jpgMenn þurfa ekki að dvelja lengi í Skagafirði til að átta sig á að hér er eitt blómlegasta hérað landsins. Óvíða er fjölbreytni í atvinnulífinu meiri og þjónustustig gagnvart íbúunum hærra. Þrátt fyrir ágætan árangur á undanförnum árum, sem m.a. lýsir sér í talsverðri íbúafjölgun, má hvergi slaka á.

Við þurfum að geta boðið fólki sem vill flytja hingað upp á sem allra besta þjónustu. Margt er þegar til fyrirmyndar en annars staðar verður að bæta úr. Til að mynda þarf að leita leiða til að auka framboð leiguhúsnæðis, vinna að úrbótum við húsnæði Árskóla og hjá leikskólum utan Sauðárkróks, halda áfram metnaðarfullum áformum í hitaveitu- og ljósleiðaralögnum, vinna að undirbúningi byggingar íþróttahúss á Hofsósi o.fl. Gæta þarf þess að niðurskurður ríkisútgjalda bitni hvorki á grunnþjónustu hins opinbera heima í héraði né brottflutningi starfa þeirra opinberu stofnana sem hér eru. Síðast en ekki síst verðum við að halda áfram stuðningi við menningu og umhverfi í Skagafirði því aðlaðandi og snyrtilegt umhverfi skiptir miklu máli í búsetuvali fólks og vali ferðamanna á áfangastöðum.

Umgjörðin skiptir máli

Góð umgjörð á að miðast við þarfir okkar allra. Við eigum að leggja okkur öll fram um að búa sem best að menntun heima í héraði, í takt við stefnu núverandi meirihluta sem m.a. hefur verið fylgt eftir með sáttmála til sóknar í skólamálum. Fjölbreytt atvinnuuppbygging skiptir máli svo börnin okkar snúi til baka þegar námi lýkur annars staðar og tryggir lífsviðurværi í heimabyggð. Því þarf að halda áfram metnaðarfullu samstarfi sveitarfélagsins og fyrirtækja í Skagafirði til að laða að og byggja upp fleiri stoðir í atvinnulífinu.

Að mörgu skal hyggja ef vel á að byggja

Samhliða metnaðarfullum markmiðum í uppbyggingu þarf að huga vel að undirstöðunum. Aðhalds þarf að gæta í rekstri sveitarfélagins og leita leiða til hagræðingar og hagkvæmustu lausna hvarvetna sem því verður við komið. Góður rekstur gerir okkur kleift að ráðast í fleiri uppbyggingarverkefni sem skila okkur aftur frekari fjölgun og fleiri ánægðum íbúum. Markviss fjármálastjórn er því grundvallarforsenda framsóknar skagfirsks samfélags. Á það verður aldrei lögð nægjanleg áhersla. Með áframhaldandi ábyrgð og öguðum vinnubrögðum eru okkur allir vegir færir. Tækifærin eru til staðar og framtíðin er björt.

Stefán Vagn Stefánsson - skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Skagafirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband