Höldum áfram framsókn í Skagafirði

viggo_992603.jpgÉg heiti Viggó Jónsson og er fæddur og uppalinn á Fagranesi á Reykjaströnd og því Skagfirðingur í húð og hár. Eiginkona mín heitir Rannveig Lilja Helgadóttir, nuddmeistari. Við eigum þrjú börn þau Helga Rafn, Sigríði Ingu og Elfar Má. Ég lauk rafvélavirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1989 og útskrifaðist síðan með meistararéttindi 2001. Í dag starfa ég sem forstöðumaður skíðadeildar Tindastóls. Auk þess rek ég mitt eigið myndvinnslufyrirtæki. Á lífsleið minni hef ég starfað við hin ýmsu störf, bæði til sjós og lands. Ég hef gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna og Framsóknarflokkinn. Ég sat í bæjarstjórn Sauðárkróks árin 1990-1994.

Í gegnum íþróttaiðkun og félagsstörf barna minna hef ég kynnst því góða starfi sem fram fer innan íþróttahreyfingarinnar. Ég tel mikilvægt á tímum sem þessum að við hlúum vel að börnunum okkar og sjáum til þess að allir eigi jafna möguleika á að stunda íþróttir og tómstundir, óháð efnahag og búsetu. Ég tel að hvergi á landinu sé jafn fjölbreytt starf á meðal barna og unglinga og einmitt hér í Skagafirði en það er ein forsenda þess að fók vilji búa hér í þessu fallega héraði.

Ef við tökum hestamennskuna sem dæmi þá er þar unnið gríðarlegt barna- og unglingastarf en einnig eru menn að keppa að því að ná sem bestum árangri bæði sem knapar og einnig í ræktun hrossa sinna. Hver vill ekki vera á besta hestinum og hver vill ekki hafa bestu stjórn á sínum gæðingi og skara fram úr? Þetta á við í öllum íþróttum; skákmaðurinn vill vera bestur meðal skákmanna, liðstjórinn í litboltaleiknum vill standa uppi sem sigurvegari, siglingamaðurinn vill ná sem bestum árangri, körfuboltamaðurinn vill ná árangri og verða bestur. Því er það eitt af hlutverkum okkar að skapa sem besta umgjörð og vinna með þeim aðilum sem vinna að þessum málum hver á sínu sviði svo sómi sé að.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur verið í fararbroddi í því að vinna með íþróttalífinu og þannig eigum við að starfa áfram og gera enn betur. Samvinnan er alltaf best.

Kjósandi góður. Ég vil leggja mitt af mörkum til að gera gott samfélag betra. Þess vegna býð ég mig fram í fjórða sæti á lista Framsóknarflokksins í kosningunum til sveitarstjórnar 29. maí nk.

Viggó Jónsson - 4. sæti á lista Framsóknarflokksins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband