Í Skagafirði er gnægð tækifæra til uppbyggingar

sigridur.jpgÉg heiti Sigríður Magnúsdóttir, borin og barnfæddur Sauðkrækingur. Á fimmta aldursári flutti ég með fjölskyldu minni til Ástralíu og þar bjó ég til ársins 2001 þegar mér bauðst staða sem fjármálastjóri hjá Siemens í Þýskalandi. Í þau 40 ár sem ég bjó í Ástralíu lifðu sterk tengsl við fjölskylduna heima og Skagafjörður hafði alltaf sérstakan sess. Foreldrar mínir fluttu heim 1987 og móðir mín býr hér enn. Þegar tækifæri til gafst á kaupa æskuheimilið og flytja til Íslands var það ekki spurning í huga mínum að láta verða að því. Ég gerði mér grein fyrir því að það þýddi töluverða kjaraskerðingu en mér bauðst staða á Hólum sem var bæði spennandi starf og gefandi. Fyrir einu ári síðan fór ég að vinna hjá Leiðbeiningarmiðstöðinni.

Í störfum mínum hjá Hólum og Leiðbeiningarmiðstöðinni hef ég fengið innsýn í þá undirstöðugrein sem landbúnaðurinn er, auk víðtækrar þekkingar á háskólaumhverfinu. Í Skagafirði er um margt einstaklega fjölbreytt atvinnulíf. Hér er að finna öll skólastig, hér er blómlegur fiskiðnaður og hverskonar iðnaður annar, opinberar stofnarnir, ýmsar rannsóknarstofnanir, þjónustufyrirtæki auk fjölbreytts landbúnaðar. Fjölbreytt atvinnulíf er undirstaða fjölbreytts mannlífs þar sem hinar ýmsu atvinnugreinar kalla á mismunandi reynslu og menntun sem veldur því að samfélagið er ekki eins einsleitt og annars kynni að verða.

Ég tel að sú starfsgrein sem leggja þarf hvað mesta áherslu í héraðinu á næstu árum sé ferðamannaiðnaðurinn. Í Skagafirði er gnægð tækifæra til uppbyggingar og ber að hlúa að sprotastarfsemi jafnt sem uppbygginu og áframhaldi starfsemi sem þegar er til staðar. Hér eru fjölmargir einkaaðilar sem bjóða upp á ferðaþjónustu eða afþreyingu tengda henni og hér eru einnig áhugaverð söfn og staðir sem laða að ferðamenn. Glaumbær er nú þegar einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, fjöldi manns sækir heim Hóla og Vesturfarasetrið í Hofsósi svo nokkrir staðir séu nefndir. Í tengslum við verkefnið á Sturlungaslóð eru einnig að verða til spennandi afþreyingar- og ferðaþjónustukostir. Ég tel að frumkvæði heimamanna og samstarf um ferðaþjónustu í héraðinu komi til með að stuðla að betri gæðum þjónustunnar og aukinni fjölbreytni. Mikilvægt er að hin ýmsu ferðaþjónustuverkefni byggi á sjálfbærni og má í því dæmi benda a verkefnið Matarkistuna Skagafjörð þar sem áhersla er á samþættingu matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu.

Ég tel að sem „heimfluttur“ Skagfirðingur/Íslendingur hafi ég að mörgu leyti aðra sýn á samfélagið og á þeirri sýn og reynslu vil ég byggja mína vinnu fyrir sveitarfélagið. Það er mikill mannauður í Skagafirði, fólginn í þeim sem hér eru fæddir og uppaldir en ekki síður aðfluttu fólki sem hér hefur ílendst fyrir ýmsar sakir. Mér hefur stundum fundist að hér ríki viss ósýnileiki og að oft sé erfitt fyrir einstaklinga að komast inn í rótgróið skagfirskt samfélag. Nýliðin atvinnu- og mannlífssýning sýndi svo um munar í hve fjölbreyttu samfélagi við búum, bæði hvað varðar atvinnutækifæri, frumkvæði einstaklinga og ekki síst í þeirri fjölbreyttu menningarstarfsemi sem hér fer fram. Þar fékk fólk tækifæri til að kynnast fyrirtækjum og starfsemi en ekki síður fólkinu sem stendur á bak við hana. Slíkir viðburðir tel ég að séu mikilvægir til að stuðla að samkennd og meðvitund fólks um að það tilheyri og sé mikilvægur hluti af samfélagi.

Það eru forréttindi að búa í „litlu“ samfélagi eins og Skagafjörður er en því fylgir líka ábyrgð. Það er auðveldara fyrir einstaklinga að taka þátt í og móta umhverfi sitt og samfélag en oft getur nándin einnig orðið til þess að erfiðara er að stíga niður fæti. Ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í mótun og stefnu samfélagsins sem ég bý í og því hef ég boðið mig fram á lista Framsóknarflokksins til þeirra verka og mun vinna þau af eins miklum heilindum og mér er unnt.

Sigríður Magnúsdóttir - 2. sæti á lista Framsóknarflokksins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband