Færsluflokkur: Bloggar

Lokatölur komnar - Framsókn áfram með 4 menn og yfir 40% atkvæða

Lokatölur eru komnar í Skagafirði. Framsóknarflokkurinn bætir við sig frá sveitarstjórnarkosningunum 2006 og fær ríflega 40% atkvæða.

Atkvæðin röðuðust sem hér segir:

B-listi Framsóknarflokks – 886 atkvæði - 40,3% - 4 fulltrúar

D-listi Sjálfstæðisflokks – 541 atkvæði - 24,6% - 2 fulltrúar

V-listi Vinstri grænna – 356 atkvæði - 16,2% - 1 fulltrúi

F-listi Frjálslynda flokks – 219 atkvæði - 10% - 1 fulltrúi

S-listi Samfylkingar – 197 atkvæði - 9% - 1 fulltrúi

Auðir – 117

Ógildir – 14

Heimild: www.ruv.is

Framsókn í forystu - aðeins eftir að telja utankjörfundaratkvæði

Þegar 2077 atkvæði hafa verið talin í Skagafirði halda Framsóknarmenn öruggri forustu með 768 atkvæði. Næstir koma Sjálfstæðismenn með 484 atkvæði.

Atkvæðin röðuðust sem hér segir:

B-listi Framsóknarflokks – 768

D-listi Sjálfstæðisflokks – 484

V-listi Vinstri grænna – 316

F-listi Frjálslynda flokks – 206

S-listi Samfylkingar – 177

Auðir – 112

Ógildir – 14

 

Heimild: www.feykir.is


Kosningakaffi og kosningavaka

Kosningakaffi verður í Framsóknarhúsinu á Sauðárkróki í dag, frá kl. 15:00-18:00. Framsóknarflokkurinn býður einnig upp á akstur á kjörstað. Hringið í síma 453 5374.

Þá verður kosningavaka í Framsóknarhúsinu á Sauðárkróki og hefst hún kl. 22:30 í kvöld.

Við þökkum frábærar viðtökur á undanförnum vikum.

Tryggjum áframhaldandi framsókn í Skagafirði - X-B!

Sveitarfélag í sókn

stefanvagn.jpgMenn þurfa ekki að dvelja lengi í Skagafirði til að átta sig á að hér er eitt blómlegasta hérað landsins. Óvíða er fjölbreytni í atvinnulífinu meiri og þjónustustig gagnvart íbúunum hærra. Þrátt fyrir ágætan árangur á undanförnum árum, sem m.a. lýsir sér í talsverðri íbúafjölgun, má hvergi slaka á.

Við þurfum að geta boðið fólki sem vill flytja hingað upp á sem allra besta þjónustu. Margt er þegar til fyrirmyndar en annars staðar verður að bæta úr. Til að mynda þarf að leita leiða til að auka framboð leiguhúsnæðis, vinna að úrbótum við húsnæði Árskóla og hjá leikskólum utan Sauðárkróks, halda áfram metnaðarfullum áformum í hitaveitu- og ljósleiðaralögnum, vinna að undirbúningi byggingar íþróttahúss á Hofsósi o.fl. Gæta þarf þess að niðurskurður ríkisútgjalda bitni hvorki á grunnþjónustu hins opinbera heima í héraði né brottflutningi starfa þeirra opinberu stofnana sem hér eru. Síðast en ekki síst verðum við að halda áfram stuðningi við menningu og umhverfi í Skagafirði því aðlaðandi og snyrtilegt umhverfi skiptir miklu máli í búsetuvali fólks og vali ferðamanna á áfangastöðum.

Umgjörðin skiptir máli

Góð umgjörð á að miðast við þarfir okkar allra. Við eigum að leggja okkur öll fram um að búa sem best að menntun heima í héraði, í takt við stefnu núverandi meirihluta sem m.a. hefur verið fylgt eftir með sáttmála til sóknar í skólamálum. Fjölbreytt atvinnuuppbygging skiptir máli svo börnin okkar snúi til baka þegar námi lýkur annars staðar og tryggir lífsviðurværi í heimabyggð. Því þarf að halda áfram metnaðarfullu samstarfi sveitarfélagsins og fyrirtækja í Skagafirði til að laða að og byggja upp fleiri stoðir í atvinnulífinu.

Að mörgu skal hyggja ef vel á að byggja

Samhliða metnaðarfullum markmiðum í uppbyggingu þarf að huga vel að undirstöðunum. Aðhalds þarf að gæta í rekstri sveitarfélagins og leita leiða til hagræðingar og hagkvæmustu lausna hvarvetna sem því verður við komið. Góður rekstur gerir okkur kleift að ráðast í fleiri uppbyggingarverkefni sem skila okkur aftur frekari fjölgun og fleiri ánægðum íbúum. Markviss fjármálastjórn er því grundvallarforsenda framsóknar skagfirsks samfélags. Á það verður aldrei lögð nægjanleg áhersla. Með áframhaldandi ábyrgð og öguðum vinnubrögðum eru okkur allir vegir færir. Tækifærin eru til staðar og framtíðin er björt.

Stefán Vagn Stefánsson - skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Skagafirði


Kosningakaffi

xb2010_995106.jpgKosningakaffi verður í Framsóknarhúsinu á Sauðárkróki á kjördag, frá kl. 15:00-18:00. Framsóknarflokkurinn býður einnig upp á akstur á kjördag. Hringið í síma 453 5374.

Þá verður kosningavaka í Framsóknarhúsinu á Sauðárkróki og hefst hún kl. 22:30 á laugardagskvöldinu.

Við þökkum frábærar viðtökur á undanförnum vikum.

Tryggjum áframhaldandi framsókn í Skagafirði - X-B!

Pizzakvöld

xb2010_994736.jpgUngir framsóknarmenn bjóða upp á pizzur og meðlæti á Mælifelli kl. 20 í kvöld. Lifandi tónlist og frambjóðendur verða á staðnum.

Ungt fólk, fjölmennið!

Ungir framsóknarmenn

Kosningaskrifstofa og kosningakaffi

Kosningaskrifstofa Framsóknarflokksins í Skagafirði er á Suðurgötu 3 á Sauðárkróki.

Skrifstofan er opin frá kl. 12-21. Alltaf heitt á könnunni, bakkelsi og fjörugt spjall.

Á kjördag verður glæsilegt kosningakaffi á Suðurgötunni frá kl. 15-18.

Verið velkomin!

Sameiginlegir framboðsfundir í dag og á morgun

xb2010_994318.jpgSameiginlegir framboðsfundir framboðanna í Skagafirði verða haldnir í dag og á morgun. Fyrsti fundurinn verður í Menningarhúsinu Miðgarði í dag og hefst hann kl. 17:00.

Í kvöld verður annar fundur á Mælifelli og hefst hann kl. 20:30.

Á morgun verður síðan lokafundurinn í Höfðaborg á Hofsósi og hefst sá fundur kl. 20:30.

Frambjóðendur flokkanna verða með framsögur en í kjölfarið verða leyfðar fyrirspurnir úr sal.

Stjórnandi er Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Allir velkomnir!

Tryggjum áfram ódýr leikskólapláss

ingibjorn.jpgNæstkomandi laugardag göngum við Skagfirðingar að kjörborðinu og kjósum okkur nýja sveitarstjórn, eins og flestir Íslendingar. Framsóknarmenn í Skagafirði leggja mikla áherslu á barnafólkið, enda nauðsynlegt að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur í þessum málaflokki. Með tilkomu nýs leikskóla á Sauðárkróki verða ekki fyrir hendi biðlistar á leikskólum þar. Það skiptir miklu máli þegar fólki fjölgar í sveitarfélaginu að grunnþjónusta eins og leik- og grunnskólar sé í fullkomnu lagi.

Í upphafi kjörtímabilsins beittum við framsóknarmenn okkur fyrir lækkun dagvistunargjalda í leikskólum sveitarfélagsins um 20%, eins og við höfðum lofað fyrir kosningar. Auk þess hefur afsláttarkerfi verið breytt þannig að nú greiða foreldrar aðeins fullt gjald fyrir eitt barn, helmingsgjald fyrir annað barn og ekkert fyrir fleiri. Af þessum sökum hefur kostnaður hjá barnmörgum fjölskyldum lækkað mikið.

Á þeim tímum sem við búum við í dag er mikil hætta á verðhækkunum og gjaldskrárhækkunum sem geta komið sérstaklega illa við barnafjölskyldur. Við framsóknarmenn höfnum hækkun á leikskólagjöldum í sveitarfélaginu á komandi kjörtímabili umfram vísitölu. Það þýðir að leikskólagjöld verða að raunvirði þau sömu allt kjörtímabilið.

Sveitarfélagið Skagafjörður skipar sér í flokk með þeim sveitarfélögum sem bjóða upp á hvað ódýrust leikskólapláss yfir landið. Í þeim flokki ætlum við að vera áfram á komandi kjörtímabili.

Setjum X við B á laugardaginn og tryggjum ódýr leikskólapláss áfram.

Ingi Björn Árnason – skipar 8. sæti á lista Framsóknarflokksins


Kosning utan kjörfundar

xb2010_992643.jpgVið minnum á utankjörfundaratkvæðagreiðslu sem hófst 6. apríl sl. og stendur til kjördags. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:

  • Hjá sýslumönnum um land allt eða á öðrum stöðum sem hann ákveður í umdæmi hans.
  • Erlendis á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða á skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur og ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram erlendis.
  • Á sjúkrahúsum, í fangelsum og á dvalar- og vistheimilum. Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra og stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um fangelsi og vistmenn þar. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar.
  • Heimahúsi. Kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, sbr. framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 3 vikum fyrir kjördag. Kjörstjóri auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram á þann hátt sem venja er á hverjum stað. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en klukkan 16.00 fjórum dögum fyrir kjördag.

Nánari upplýsingar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu má finna hér.

Við hvetjum alla framsóknarmenn til að láta stuðningsmenn sem verða ekki heima á kjördag vegna náms, vinnu, veikinda eða ferðalaga, vita hvar og hvenær hægt er að greiða atkvæði utan kjörfundar. Hvert atkvæði skiptir máli!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband